E
itt sinn var kona sem taldi sig vissa um að fuglarnir í garðinum hennar töluðu grísku við hana og að látin móðir hennar talaði til hennar. Þetta var árið 1941. Það var að nálgast vor á Bretlandseyjum. Konan gekk um í garðinum við hús sitt og eiginmannsins, Monk’s í austurhluta Sussex.
Það virtist sem „opnast“ hefði um of á „milliheimagáttir“ í höfði hennar og það aukna flæði milli lítt tengdra „heima“ hafði sterk áhrif á vitund hennar og breytni þennan dag í lok marsmánaðar. Konan gekk í kápu sinni með vasana fulla af grjóti í átt að ánni Ouse sem rann skammt frá húsi „munksins“. Hún hafði skilið eftir skilaboð til eiginmannsins á eldhúsborðinu sem ráðskonan kom auga á er hún hófst handa við að undirbúa máltíð handa þeim hjónum.
Konan var í félagskap/hóp sem nefndi sig Bloomsbury-hópinn. Í þeim hópi voru, auk konunnar, manneskjur á borð við John Maynard Keynes, E.M. Foster, Lytton Strachey, Roger Fry, Clive Bell og fleira andans fólk. Hópurinn hafði mikil áhrif á þróun hugsunar í heimspeki, listum, stjórnmálum og lífsviðhorfum á upphafsárum síðustu aldar.
Nánustu ættingjar og vinir konunnar, sem nú gekk að ánni í þungu kápunni albúin að hverfa, hafa lýst henni sem skynsamri manneskju. „Milliheimaflæðið“ virðist hafa sveiflað henni títt frá hinni þröngu en nauðsynlegu skynsemisnálgun yfir í stjórnleysi.
Þar á milli bjó hins vegar jarðvegur gríðarlegrar sköpunar sem konan hafði fram að þessum degi, 28. mars 1941, geta umfaðmað og beint í farveg sköpunar til áhrifa á heiminn.
Er eiginmaður konunnar, Leonard, gengur hægt niður stigann í húsi þeirra heyrir hann rödd ráðskonunnar berast til sín. Hún er í uppnámi. Bréf merkt honum liggur ásamt öðru bréfi á borðinu.
Virginia Woolf, eiginkona hans, er þá þegar komin undir yfirborð árinnar Ouse. „Milliheimaflökt“ hugar hennar hljóðnað. Ljósið upprisið úr líflausum líkama hennar.
Það er umhugsunarefni hvernig við upplifum veruleikann. Það að geta haldið „gáttinni“ opinni og geta stýrt flæðinu er vandmeðfarið. Það er þó skoðun þeirra sem ég hef rætt við og upplifað hafa „flökt“ að hægt sé að gera tilraun til að stýra slíku með ákveðnum hætti. Huga að svefni, hreyfingu, mataræði og heilsusamlegum lífsháttum. Forðast öll hugvíkkandi efni. Vinna að sjálfsþekkingu og hugleiða.
Þetta eru engin geimvísindi. Þeir sem hafa næma huga og telja skynsvið sín rúm hafa það oft á orði að mikilvægast sé þó að lágmarka utanaðkomandi áreiti, velja sér við-bragð og hvíla vel í kjarna sínum, punktinum.
Við erum öll „opin“. Við, þau „venjulegu“, gætum skynjað snefil af „milliheimum“ rétt fyrir svefn og í svefnrofum að morgni. Þá gætu fuglarnir talað grísku.